Kristján Sveinsson er smiður og umsjónarmaður fasteigna hjá samtökum líknarfélaga í Reykjavík. Hann er sem sagt er handlaginn og hugmyndaríkur náungi.
Á haustdögum fyrir þremur árum var hann að dytta að íbúð skjóstæðings og barst tal þeirra að jólunum. Kristján spurði manninn, sem misst hafði hægri höndina í umferðarslysi, hvað honum þætti best að borða á aðfangadagskvöld.
„Lambalærið var, er, og verður alltaf hátíðarmálsverður á aðfangadagskvöld í minni fjölskyldu. Það er bara svo ómótstæðilega gómsætt,“ sagði sá einhenti og brá fyrir óræðum en dreymandi svip á andliti hans. „En nú á ég bara ekki lengur gott með að bjóða upp á ofnbakað lambalæri að hætti mömmu um jólin,“ hélt hann áfram.
„Nú, af hverju ekki“? spurði Kristján undrandi.
„Reyndu sjálfur að skera niður lambalæri á sleipu fati með annarri hendinni. Það er hreint út sagt ekkert hátíðarlegt við þær aðfarir og bara frekar neyðarlegt,“ svaraði maðurinn dapurlega.
Í lok vinnudags á leiðinni heim varð Kristjáni mikið hugsað um frásögn þessa ólánsama manns. Það væri auðvitað erfitt að ímynda sér hversu mikið allur veruleikinn breyttist við það að missa hönd. Öll viðvik, stór og smá, hljóta að verða flókin og svo erfið. Hann fann fyrir löngun til að létta líf þessa manns á einhvern hátt.
Þá brá fyrir hugskotssjónir Kristjáns teikning eða ljósmynd sem kunningi hans hafði einhverju sinni sýnt honum. Þessi kunningi er sportveiðimaður og mikill matmaður – reyndar sérlegur aðdáandi íslenska fjallalambsins. Hann hafði boðið Kristjáni heim upp á háaloft til að smakka tvíreykt hrátt hangikjöt. Hann skar fimlega þunnar flísar og rétti Krisjáni. Þetta var svo sannarlega algjört hnossgæti og dásömuðu þeir félagar afurðir íslensks landbúnaðar.
Í framhaldinu dró hann fram úr fórum sínum mynd af kjötlæri sem skorðað var upp á einhvers konar statíf. Um leið tjáði hann sig af nokkurri vandlætingu um það hversu honum þótti matarmenning Íslendinga vera sumpart lítt þróuð. Máli sínu til stuðnings sagði hann Kristjáni frá „kjötgálganum“sem hann hafði séð á ferð sinni um Evrópu og þætti þar sjálfsagt búsáhald, en hérlendis væri gálginn óþekkt fyrirbæri. Hann sagðist mest sjá eftir því að hafa ekki keypt sér eitt slíkt í ferðinni því „Gálginn“ væri mikið þarfaþing og auðveldaði allan niðurskurð á kjöti.
Við þessa upprifjun laust þeirri hugmynd niður í kollinn á Kristjáni að þetta væri einmitt það sem hann gæti sjálfur smíðað fyrir þann einhenta. Hann ákvað að koma kunningja sínum á óvart og færa honum að gjöf kjötgálga og gera honum þannig jólahaldið auðveldara og ánægjulegra.
Kristján, sem er með fullkomna aðstöðu til smíða í skúrnum heima, tók strax til við að hanna, útfæra og smíða frumgerð sína að kjötgálga. Með eftirvæntingu, einbeitingu og allri sinni fagkunnáttu stóð hann allsáttur með fullbúinn kjötgálga í höndunum aðeins tveimur kvöldum seinna. Hann hélt áfram og smíðaði nokkra gálga í viðbót og um leið fann hann betri lausnir á smíðinni og fullkomnari útfærslur.
Það varð Kristjáni mikil ánægja að fá innilegt þakkarbréf í pósti milli jóla og nýárs. Bréfinu fylgdi ljósmynd frá jólaborði mannsins, gálginn góði á miðju borði með fallega steiktu lambalæri og sneiðar á diski við hliðina. Neðst í hægra horni ljósmyndarinnar var brennt dagsetningin 18:10 / 24.12.2006.
– – –
Eins og myndir af Gálganum bera með sér er hægt að láta „brennimerkja“ á hann nöfn eigenda og skreyta að vild. Gálginn er því tilvalin tækifærisgjöf – t.d. sem afmælisgjöf, brúðkaupsgjöf eða við önnur skemmtileg tilefni. Þá er vinsælt að merkja hann nöfnum sumarbústaða, bæja og fyrirtækja. All er hægt með þessari laser-skurðar tækni. Kristján tekur að sér uppsetningu á texta, teikningum og myndum eftir óskum viðskiptavina. Einnig er hægt að brenna á Gálgann sérteiknuð merki eða aðrar skreytingar sem sendar eru honum. Stærð á bakkanum er 23 x 33 cm, en ef óskað er sérstaklega eftir annari stærð er hægt að verða við því.
Gálginn er eingöngu seldur beint frá Kristjáni eftir pöntun og veitir hann allar nánari upplýsingar: Kristján Sveinsson, Háseylu 28, 260 Reykjanesbæ, Sími: 421 4808, GSM: 863-6884, Tölvupóstfang:skogarholl@gmail.com